Snæfjallahreppur

Snæfjallahreppur

Í Snæfjallahreppi og Grunnavíkurhreppi hafa orðið mikil umskipti síðastliðin hundrað ár.
Um aldamótin 1900 var mannlíf í miklum blóma á þessu svæði og íbúafjöldinn umtalsverður á landsmælikvarða.
Íbúum hafði fjölgað jafnt og þétt öldum saman. Árið 1703 voru 8 býli í byggð á Snæfjallaströnd með samtals 147 íbúum, þar af 5 ómögum. 1801 voru býlin jafnmörg, en íbúum hafði fækkað niður í 130.
Í flestum tilvikum var tví- eða þríbýli og á einum stað, Unaðsdal, var fjórbýli, svo bæirnir voru í reynd 20. Íbúafjöldinn á Snæfjallaströnd fór eftir það ört hækkandi og voru þar yfir 300 manns um aldamótin 1900, þegar árabátaútgerð var í hvað mestum blóma.
Árið 1910 var íbúafjöldinn hinsvegar kominn niður í 223 og um 1930 var 21 bær í byggð í Snæfjallahreppi með um 150 íbúa.
Á þessum árum og fram eftir 4. áratugnum fór fólki svo ört fækkandi og fjölskyldur fluttu í burtu, einkum af ytri Ströndinni. Gamlar kostajarðir fóru þá í fyrsta sinn í eyði og á byggðasögusýningunni í Dalbæ er lögð áhersla á að bregða ljósi á hvernig umhorfs var um og eftir 1930 þegar hinar miklu umbreytingar urðu og ásýnd Strandarinnar breyttist.

Á ytri Ströndinni í landi Sandeyrar og Snæfjallastaðar var talsverð þurrabúðabyggð um aldamótin 1900. Þegar mest var bjuggu þar fjórtán fjölskyldur í litlum kotum með lítið undirlendi, en gjöful fiskimið skammt undan landi.

Kristján Jónsson frá Garðsstöðum ritaði ítarlega um búendur og bátaformenn þar árið 1901 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga. Í Grunnavík var uppgangur í útgerð eftir aldamótin og fram yfir 1950.

Þorvaldur Thoroddsen segir í Ferðabók sinni rétt fyrir aldamótin 1900 að kotahverfi sé niður við sjóinn í Grunnavík. Um 80 manns eru þá taldir eiga þar heimili.

Jóhann Hjaltason skrifar 1949 að þarna sé snotur byggð og að bæirnir standi þar þétt. Byggðin var þá kölluð Í Víkinni og voru íbúarnir enn um 70. Ljóst er að þarna var vísir að þéttbýliskjarna sem hvarf nánast eins og dögg fyrir sólu á rúmum áratug.
Byggð hélst áfram í blóma á innri Snæfjallaströnd, þó býlum fækkaði. Með samgöngubótum og Inn-Djúpsáætlun var að reynt að sporna gegn því að byggðin legðist í eyði, líkt og raunin varð á með Grunnavík haustið 1962.
Þróunin varð þó ekki umflúin og síðasti bóndinn hvarf af Ströndinni haustið 1995. Síðan hefur einungis verið fólk þar á sumrum, líkt og í Grunnavík og á Höfðaströnd, utan fólks við veðurathuganir og vitavörslu í Æðey.

Upplýsingar fengnar á heimasíðu Snjáfjallaseturs.

Hér fyrir neðan verða skráðar þær jarðir er tilheyrðu þessum hreppi.

Ef þú hefur upplýsingar um þær sem uppá vantar, þá værum við afar þakklát ef þú vildir senda okkur þær á jord@svo.is

Skráningarstaða jarða í þessum hreppi:

  • Skráningu lokið
  • Skráning í vinnslu
  • Skráning ekki hafin - Vantar upplýsingar