Austur-Húnavatnssýsla

Austur-Húnavatnssýsla

Austur-Húnavatnssýsla er sýsla á Norðurlandi, milli Vestur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu en þar að auki á hún mörk að Mýrasýslu og Árnessýslu.

Sýslan liggur fyrir botni Húnaflóa og er alls um 4920 km². Tveir þéttbýlisstaðir eru í sýslunni; Blönduós og Skagaströnd. Sýslunnar var fyrst getið, svo vitað sé, árið 1552. Saman eru sýslurnar, Austur- og Vestur-Húnavatnssýsla, oft nefndar Húnaþing.

Austur-Húnavatnssýsla liggur fyrir botni Húnafjarðar, inn af Húnaflóa, og upp af honum liggja láglendar sveitir. Upp af þessum sveitum ganga svo dalir á borð við Vatnsdal, Langadal, Svínadal, Blöndudal sem og Svartárdal. Upp af Húnafirði eru nokkur vötn; stærst þeirra eru Hópið, Flóðið, Húnavatn og Svínavatn.

Upp af láglendum sveitunum ganga víðáttumikil heiðalönd á borð við Grímstunguheiði, Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði.

Nokkrar af þekktustu ám landsins setja mark sitt á sýsluna og eru það helstar Blanda, Laxá á Ásum og Laxá í Refasveit, sem og Vatnsdalsá.

Á Skagaströnd er undirlendi meðfram sjó á um 2-4 km breiðri ræmu. Er sú sveit grösug og gróin. Á Skaga eru einnig ýmsir dalir; mestur þeirra er Laxárdalur en um hann liggur þjóðvegurinn um Þverárfjall.

Berggrunnurinn í Austur-Húnavatnssýslu myndaðist á tertíertíma fyrir um 6-8 milljón árum síðan. Það einkennist af blágrýti og halla berglögin alla jafna til vestur - þó eru nokkur stór misgengi s.s. um Langadalsfjall og Blöndudal. Fjórar megineldstöðvar eru þekktar innan sýslunnar; eru þær í Víðidalsfjalli, Vatndals- og Svínadalsfjalli, Laxárdalsfjöllum á Skaga og fyrir botni Blöndudals. Á þessum stöðvum er að finna líparít. Inn til heiða og á Skaga eru víða grágrýtismyndanir frá miðhluta ísaldar fyrir 1-2 milljón árum síðan.
Sýslan er öll gróðursæl þó þar sé engvir skógarnir.
Á Skaga ber gróðurinn þess vitni að vera á útkjálka enda er hann opinn fyrir köldum hafáttum. Upp af sveitunum eru heiðarlöndin víðáttumikil með brokmýrar, moseþembur og flóa. Gróið land innan sýslumarka er talið vera alls um 1384 km² eða 28% af flatarmáli hennar. Vegna þessara gróðurskilyrða er sýslan mikið landbúnaðarhérað.

Á Skagaströnd er mikið útræði en slíkt var einnig í Kálfshamarsvík framan af síðustu öld en það lagðist af milli 1930 og 1940. Þar var reistur viti fyrst árið 1913 og síðar endurreistur árið 1939.
Áshreppur Sveinsstaðahreppur Torfalækjarhreppur Blönduóshreppur Svínavatnshreppur Bólstaðarhlíðarhreppur Engihlíðarhreppur Vindhælishreppur Höfðahreppur Skagahreppur Austur-Húnavatnssýsla